Svar
Ísland er aðili að fríverslunarsamningum við rúmlega sextíu ríki. Samningarnir eru í meginatriðum byggðir eins upp og hafa flestir þeirra komið til með samstarfi EFTA-ríkjanna. Mikilvægasti samningur Íslands og jafnframt sá víðtækasti er EES-samningurinn.
***
Ísland hefur gert fríverslunarsamninga við meira en sextíu ríki. Á vettvangi
EFTA-samstarfsins hafa verið undirritaðir 24 samningar sem taka til 33 ríkja. Til viðbótar hefur Ísland gert tvíhliða fríverslunarsamninga við Evrópusambandið, Færeyjar, Kína og Noreg, svo og Danmörku varðandi fríverslun við Grænland. Megintilgangur fríverslunarsamninganna er afnám viðskiptahindrana, svo sem tolla, og magntakmarkana á varningi og þannig eiga þeir að stuðla að auknum viðskiptum milli ríkja. Ítarlegt yfirlit yfir þá fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að er að finna á
heimasíðu utanríkisráðuneytisins.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra Íslands ásamt ráðherrum EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjóra EFTA. |
Hægt er að skipta fríverslunarsamningum Íslands í tvo flokka, annars vegar marghliða samninga þar sem aðilar að samningunum eru fleiri en tveir og hins vegar tvíhliða samninga á milli tveggja ríkja. Íslensk stjórnvöld hafa löngum haft það fyrir hefð að hefja ekki tvíhliða viðræður við ríki fyrr en fullreynt er að hefja fríverslunarviðræður á vettvangi EFTA. Hafa því flestir fríverslunarsamningar Íslands komið til með samstarfi
EFTA-ríkjanna . Þetta er einkum vegna þess að gerð fríverslunarsamninga getur verið tímafrekt og kostnaðarsamt ferli sem krefst mikillar vinnu og sérfræðiþekkingar. Einnig er samningsstaða Íslands sterkari í samfloti við hin EFTA-ríkin fremur en eitt og sér.
Ísland hefur þó gert nokkra tvíhliða fríverslunarsamninga og þar ber helst að nefna nýlegan samning við Kína. Ísland var fyrsta Evrópuríkið til þess að gera fríverslunarsamning við Kína og er enn eina ríkið með slíkan samning, en bæði Sviss og Noregur eiga nú í viðræðum við Kína um fríverslun. Nánar er fjallað um fríverslunarsamninginn í svari við spurningunni
Af hverju gerði Ísland fríverslunarsamning við Kína og um hvað snýst samningurinn?
Fríverslunarsamningar Íslands eru í meginatriðum byggðir eins upp og innihalda kafla um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur, fjárfestingar, hugverkavernd, samkeppnismál, samvinnu á ýmsum sviðum, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur það verið stefna íslenskra stjórnvalda í fríverslunarviðræðum að veita ekki öðrum ríkjum markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur hérlendis eða þá mjög takmarkaðan aðgang. Eini samningur Íslands sem veitir öðru ríki fullan markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur er Hoyvíkursamningurinn en nánar er fjallað um hann í svari við spurningunni
Hvað er Hoyvíkursamningurinn og á hvaða hátt er hann frábrugðinn öðrum fríverslunarsamningum Íslands? Þessi krafa Íslands í fríverslunarviðræðum, auk annarra þátta, hefur leitt til þess að ekki hefur verið grundvöllur fyrir fríverslunarviðræður við stór viðskiptalönd líkt og Bandaríkin. Ítarlegri umfjöllun um möguleikann á fríverslunarviðræðum Íslands og Bandaríkjanna má finna í svari við spurningunni
Af hverju gerir Ísland ekki fríverslunarsamning við Bandaríkin?
Mikilvægasti samningur Íslands og jafnframt sá víðtækasti er
EES-samningurinn en með honum var stofnað til fríverslunarsvæðis milli EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. EES-samningurinn er þó ekki hefðbundinn fríverslunarsamningur því auk frelsis í viðskiptum með vörur og þjónustu kveður hann á um frjálsa för fólks og frjálsa flutninga fjármagns sem og sameiginlegar samkeppnisreglur. Í samningnum er ennfremur lögð áhersla á afnám óbeinna (tæknilegra) viðskiptahindrana með samræmingu staðla á öllu EES-svæðinu. EES-samningurinn felur þó ekki í sér fríverslun með allar vörur. Þannig eru landbúnaðarvörur í stórum dráttum undanþegnar í samningnum og ekki er um að ræða fríverslun með allar tegundir sjávarafurða. Nánari umfjöllun um sérstöðu EES-samningsins er að finna í svari við spurningunni
Hvert er eðli EES-samningsins?
Heimildir og mynd: