Spurning
Evrópska lögregluskrifstofan
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Evrópska lögregluskrifstofan (e. European Police Office, EUROPOL) er löggæsla Evrópusambandsins. Hlutverk hennar er að aðstoða aðildarríkin við að uppræta alþjóðlega glæpastarfsemi. Lögregluskrifstofan vinnur einnig náið með löggæsluyfirvöldum í ríkjum sem ekki eru aðildarríki Evrópusambandsins, svo sem Kanada, Ástralíu, Bandaríkjunum og Íslandi. Evrópska lögregluskrifstofan hefur ekki handtökuvald en aðstoðar ríkin við að afla, greina og miðla upplýsingum sem tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. Fyrstu formlegu hugmyndir um sameiginlega evrópska lögreglu komu frá Helmut Kohl, fyrrum kanslara Vestur-Þýskalands og síðar Þýskalands. Hann viðraði hugmyndina á leiðtogafundi í Lúxemborg árið 1991. Árið 1993 kom ráðið á fót fíkniefnadeild Evrópulögreglunnar (e. Europol Drug Unit, EDU) sem hafði umboð til að aðstoða lögregluyfirvöld aðildarríkjanna við rannsóknir. EDU færði fljótt út kvíarnar og hóf einnig að rannsaka hryðjuverk og aðra skipulagða glæpastarfsemi. Evrópska lögregluskrifstofan var formlega stofnuð með ákvæði K3 í Maastricht-sáttmálanum árið 1995, og tók ákvæðið gildi árið 1998. Þann 1. janúar 2010 varð evrópska lögregluskrifstofan fullgild stofnun Evrópusambandsins. Innan evrópsku lögregluskrifstofunnar starfa 145 tengiliðir (e. Europol Liasion Officers, ELOs) frá öllum samstarfsríkjum hennar. Eru þeir fulltrúar sinna löggæsluyfirvalda og starfa innan lagaramma síns heimaríkis. Tengiliðirnir sjá um samskipti lögregluskrifstofunnar við samstarfsríkin. Forstjóri evrópsku lögregluskrifstofunnar er skipaður af ráðinu. Núverandi forstjóri er Rob Wainwright frá Wales. Höfuðstöðvar lögregluskrifstofunnar eru í Haag í Hollandi.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 4.9.2013
Flokkun:
Efnisorð
ESB EUROPOL lögregla löggæsla alþjóðleg glæpastarfsemi Helmut Kohl hryðjuverk Rob Wainwright Haag
Tilvísun
Evrópuvefur. „Evrópska lögregluskrifstofan“. Evrópuvefurinn 4.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65746. (Skoðað 23.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela