Spurning

Hvaða merkingu hefur það að biðja um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Hinn 8. október 2013 féllst Hæstiréttur Íslands á að óska eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum um það hvort verðtryggð lán til neytenda, sem tíðkast hafa á Íslandi, standist Evrópurétt.

Innan EES eru tvær stofnanir sem fara með æðsta úrskurðarvald, það eru Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstóllinn fyrir þau EES-ríki sem ekki eru í ESB, það er Ísland, Noreg og Liechtenstein.


Dómarar EFTA-dómstólsins: f.v. Per Christiansen, Carl Baudenbacher (forseti dómsins), Páll Hreinsson og Gunnar Selvik (dómritari).

Allir dómstólar Íslands, Noregs og Liechtenstein geta beðið EFTA-dómstólinn að túlka ákvæði EES-löggjafar, hvort sem það er EES-samningurinn sjálfur eða afleidd löggjöf hans, ef dómstóllinn telur að það sé nauðsynlegt til að komast að niðurstöðu í máli sem fyrir honum liggur. Niðurstaða EFTA-dómstólsins nefnist ráðgefandi álit. Beiðnir um ráðgefandi álit skulu vera rökstuddar á hnitmiðaðan hátt en þó þannig að nægilegar upplýsingar um málið séu gefnar. EFTA-dómstóllinn tekur ekki afstöðu til málsins sem til úrlausnar er, heldur gefur aðeins upp hvernig eigi að túlka viðkomandi EES-löggjöf. Álit EFTA-dómstólsins liggur venjulega fyrir eftir 8-10 mánuði frá því að beðið var um það.

Ráðgefandi álit eru ekki bindandi fyrir ríkið sem um þau biður. Íslenskum dómstólum er því frjálst að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins en ekki skylt að haga sinni dómsniðurstöðu til samræmis við niðurstöðu álitsins. Dómafordæmi gefa þó til kynna dómar íslenskra dómstóla samræmast vel ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins í

þeim málum sem til hans hefur verið leitað.

Til samanburðar gefur Evrópudómstóllinn út forúrskurði sem ólíkt ráðgefandi álitum eru bindandi fyrir aðildarríki Evrópusambandsins. Það þykir nauðsynlegt að forúrskurðir séu bindandi til að tryggja samræmda beitingu og skýringu ákvæða EES-réttar í aðildarríkjum ESB. EFTA-ríkin hafa á hinn bóginn verið treg til að framselja fullveldi sitt og má því segja að ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins feti ákveðinn milliveg.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela