Spurning

Hvað stendur í bókun 9 við EES-samninginn?

Spyrjandi

Ari Leifsson

Svar

Bókanir við EES-samninginn nýtast til túlkunar á ákvæðum samningsins og eru mikilvægur þáttur í því að tryggja einsleita framkvæmd samningsins á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Fjallað er um eðli bókana við EES-samninginn í svari við spurningunni Hvað er átt við með bókunum og viðaukum í sambandi við EES-samninginn? Í bókun 9 við EES-samninginn er að finna ákvæði og fyrirmæli í viðskiptum með fisk og aðrar sjávarafurðir milli EFTA/EES-ríkjanna og Evrópusambandsins.

***

Bókun 9 við EES-samninginn kveður á um niðurfellingu innflutningstolla á sjávarafurðir frá Evrópusambandinu til EFTA/EES-ríkjanna (1. mgr. 1. gr.) og afnám tolla á innflutningi tiltekinna fiskafurða eða lækkun tolla á ákveðnum sjávarföngum sem EFTA/EES-ríkin flytja til Evrópusambandsins (1.-4. mgr. 2. gr.). Auk þess skuldbinda EFTA/EES-ríkin og Evrópusambandið sig til að beita ekki magntakmörkunum á innflutning á þeim vörum sem tilgreindar eru í bókuninni (2. mgr. 1. gr. og 5. mgr. 2 gr.). Þessi ákvæði gilda um vörur sem upprunnar eru hjá samningsaðilunum (3. mgr.) en upprunareglur eru skilgreindar í bókun 4 við EES-samninginn.


Þorskveiðar í Atlantshafi.

Samkvæmt þessum tollaívilnunum er mestur hluti útfluttra sjávarafurða frá Íslandi til Evrópusambandsins nánast tollfrjáls. Þær vörur sem eru alfarið undanþegnar innflutningstollum (tafla II í 2. viðbæti við bókun 9) eru:
  • Þorskur, ýsa, ufsi, grálúða og lúða, ný, kæld eða fryst, þar með talin ný eða kæld flök.
  • Þorskur, saltaður eða þurrkaður (en ekki hvorutveggja), svo og þorskflök, þurrkuð, söltuð eða í saltlegi en ekki reykt.
  • Önnur fiskflök, þurrkuð, söltuð eða í saltlegi en ekki reykt.
  • Önnur flök, hrá, aðeins þakin deigi eða brauðmylsnu, einnig forsteikt í olíu, djúpfryst.
  • Eftirlíkingar styrjuhrogna.

Þær vörur sem njóta allt að 70% tollalækkunar (tafla III í 2. viðbæti við bókun 9) eru lifandi fiskur, fiskflök, krabbadýr og lindýr að undanskildum þeim fiskafurðum sem eru alfarið undanþegnar innflutningstollum og þeim sjávarafurðum sem njóta engra tollfríðinda (fylgiskjal með töflu III í bókun 9). Fiskafurðir sem fluttar eru til ESB og bera fullan toll eru lax, síld (nema síldarsamflök), makríll, rækja, hörpudiskur og leturhumar.

Þá er að finna í bókun 9 ákvæði er varða samkeppnismál. Lagt er bann við styrkjum sem skekkja samkeppni, löggjöf samningsaðila varðandi markaðsfyrirkomulag sjávarútvegs má ekki raska samkeppni og samkeppnisskilyrði þurfa að vera tryggð þannig að tilteknir aðilar beiti ekki undirboðum á mörkuðum og jöfnunartollum (4. gr.). Í bókuninni er jafnframt kveðið á um jafnan aðgang allra fiskiskipa að höfnum og þjónustu á svæðum samningsaðilanna (1. mgr. 5. gr.). Þó er hafður fyrirvari á því og samningsaðilum veitt heimild til að banna löndun á fiski úr fiskistofnum sem báðir aðilar hafa hagsmuni af að nýta og sem alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á (2. mgr. 5. gr.). Þessu ákvæði hafa íslensk stjórnvöld til að mynda beitt varðandi löndun skipa frá Evrópusambandinu á grálúðu sem þau hafa veitt við Grænland. Ef ágreiningur ríkir um ofangreint milli samningsaðila er málið jafnframt tekið upp í sameiginlegu EES-nefndinni (6. gr.).

Að lokum kveður bókunin á um að þar sem fyrri samningar gefi viðkomandi EFTA-ríkjum betri viðskiptakjör en gert er í bókun 9 skuli ákvæði þeirra gilda (7. gr.). Í þessu sambandi gildir fríverslunarsamningur milli Evrópusambandsins og Íslands sem undirritaður var árið 1972 en bókun 6 við þann samning gildir framar ákvæðum bókunar 9 við EES-samninginn. Fyrrnefndi samningurinn tryggir meðal annars viðskipti með rækjur á meðan bókun 9 gerir það ekki.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela