Spurning

Hvers vegna þarf að framkvæma nákvæma leit á flugfarþegum eftir að þeir eru komnir til Íslands frá Bandaríkjunum?

Spyrjandi

Guðbjörg Soffía

Svar

Um tíma var framkvæmd svonefnd nákvæm leit á flugfarþegum sem komu frá Bandaríkjunum til Íslands en svo er ekki lengur. Ástæðan er sú að Bandaríkin komu til móts við kröfur Evrópusambandsins í þessum efnum. Farþegar frá öðrum löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og Kanada, Rússlandi og Tyrklandi þurfa hins vegar að sæta nákvæmri leit. Hún er ekki tilkomin vegna Schengen-samstarfsins. Með nákvæmri leit er meðal annars átt við að handfarangur er skimaður og leitað er að vopnum á farþegum.

Vegna aðildar Íslands að Schengen-samstarfinu árið 2001 hefur eftirlit með flugfarþegum til og frá ríkjum sem standa utan Schengen þó einnig aukist. Farþegar sem koma til Íslands frá Bandaríkjunum eru að koma inn á Schengen-svæðið og eftirlit með þeim hefur því verið hert.

Með Schengen-samningnum er eftirlit með ferðum einstaklinga á innri landamærum samningsríkjanna fellt niður en eftirlitið á ytri landamærum Schengen-svæðisins styrkt. Nánar er fjallað um Schengen-samstarfið í svörum Evrópuvefsins við spurningunum Hvað felst í Schengen-samstarfinu og þarf ég vegabréf til að ferðast innan Schengen-svæðisins? og Hverjar yrðu helstu breytingar fyrir Íslendinga, ef landið segði sig úr Schengen-samstarfinu?


Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Í flughöfnum í öllum Schengen-ríkjum, þar með talið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er skilið á milli farþega sem fljúga innan Schengen-svæðisins og þeirra sem fljúga til eða frá ríki sem er utan Schengen-samstarfsins. Allir sem koma inn á Schengen-svæðið fara í gegnum vegabréfaeftirlit við komu til fyrsta ríkis á svæðinu en eftir það er ekki um frekara eftirlit að ræða. Þau ríki sem þetta á helst við í reglubundnum flugsamgöngum við Ísland eru Bandaríkin, Bretland og Kanada. Með tilkomu Schengen-samstarfsins þurfa farþegar á leið til eða frá þessum ríkjum að gangast undir persónubundið eftirlit á landamærum Íslands. Það á jafnt við þótt þeir fari ekki út fyrir flugstöðina og taki tengiflug með aðeins stuttri viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Heimildir og mynd:


Höfundur þakkar Friðþóri Eydal, fulltrúi yfirstjórnar og talsmaður Isavia, fyrir yfirlestur og ábendingar.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.11.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvers vegna þarf að framkvæma nákvæma leit á flugfarþegum eftir að þeir eru komnir til Íslands frá Bandaríkjunum?“. Evrópuvefurinn 22.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=27332. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela