Spurning

Hver er staða smáríkja innan ESB?

Spyrjandi

Jökull Torfason

Svar

Geta smáríkja til að hafa áhrif innan Evrópusambandsins er umdeild en uppbygging sambandsins veitir aðildarríkjunum ólíka möguleika. Stærri aðildarríkin hafa fleiri atkvæði í ráðinu og fleiri fulltrúa á Evrópuþinginu en þar að auki búa þau yfir meira fjármagni, mannauði og viðameiri stjórnsýslu. Smáríki hafa minni vigt í ákvörðunartökuferlinu vegna færri fulltrúa og atkvæða. Þau geta ekki beitt sér á jafn mörgum sviðum sökum smærri stjórnsýslu og þurfa því að forgangsraða málefnum sínum. Til að bregðast við þessum takmörkunum hafa smáríki lagt áherslu á að byggja upp óformleg tengsl við stofnanir Evrópusambandsins og reynt að nýta tíma sinn í forsæti ráðsins vel.

***

Evrópusambandið skapar aðildarríkjunum vettvang til þess að eiga í skoðanaskiptum, móta stefnur og strauma alþjóðasamfélagsins í sameiningu og vernda hagsmuni sína. Uppbygging stofnana sambandsins og yfirþjóðleg völd þeirra veita aðildarríkjunum þó misjafna möguleika til áhrifa eftir því hversu fjölmenn þau eru. Það er undir ríkjunum sjálfum komið að ákveða hvernig þau vinna að markmiðum sínum og vernda hagsmuni sína innan sambandsins.

Það hefur lengi verið álitamál hversu mikil áhrif smáríki geta haft innan Evrópusambandsins. Í stjórnmálafræði hafa verið myndaðar sérstakar kenningar um það sem kallaðar eru smáríkjakenningar (e. small state theories). Umræðan snýr að því að greina hvaða ríki innan sambandsins er hægt að skilgreina sem smáríki og hvort smæð þeirra hefti getu þeirra til að vernda hagsmuni sína. Þegar stærð ríkja er metin er farið eftir þáttum líkt og fólksfjölda, stærð landsvæðis, stærð efnahags ríkisins sem og þjóðarframleiðslu. Þessi viðmið segja ekki nákvæmlega til um stærð ríkja en þau gefa grófa mynd af því hvernig hægt er að greina stærð þeirra.


Aðildarríki Evrópusambandsins, merkt með bláum lit.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gegnir því hlutverki að vera stefnumótandi og gæta hagsmuna sambandsins í heild sinni fremur en hagsmuna einstakra ríkja. Hún á frumkvæði að allri nýrri löggjöf og sér um að móta allar tillögur sem gerðar eru að breytingum áður en þær eru sendar til ráðsins og Evrópuþingsins til samþykkis. Þetta ferli er yfirleitt kallað samákvörðunarferlið. Ráðið er sá vettvangur þar sem aðildarríkin sinna mestum hluta hagsmunagæslu sinnar. Í flestum tilfellum eru ákvarðanir innan ráðsins teknar með auknum meirihluta (e. qualified majority) en hvert ríki fær úthlutað ákveðnum fjölda atkvæða sem ræðst að stórum hluta af íbúafjölda ríkisins. Það gerir það að verkum að stór aðildarríki ráða yfir fleiri atkvæðum en minni ríkin þótt hlutfallslega séu atkvæði smærri ríkjanna þó fleiri. Vert er að taka fram að ríkin vilja helst taka samhljóða ákvarðanir innan ráðsins og því fara atkvæðagreiðslur sjaldan fram. Nánar er fjallað um atkvæðavægi ríkja í ráðinu í svari við spurningunni Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?

Á Evrópuþinginu er aðildarríkjum einnig úthlutað þingsætum í samræmi við íbúafjölda. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að smáríki hafa minni vigt í ákvörðunartökuferlinu og þurfa því að treysta á stuðning annarra ríkja í hagsmunagæslu sinni. Yfirleitt stofna þau til skammtíma bandalags við önnur ríki um einstök málefni. Ítarlegri umfjöllun um atkvæðafjölda aðildarríkja á Evrópuþinginu er hægt að finna í svarinu Hverju breytir Lissabon-sáttmálinn í vægi aðildarríkja innan Evrópuþings og framkvæmdastjórnar?

Stærð landa hefur að vissu leyti mótað aðferðir þeirra til að hafa áhrif en ríkin virðast beita þeim aðferðum sem þau þurfa til þess að vernda hagsmuni sína. Stærri ríki sambandsins hafa fleiri atkvæði í ráðinu og fleiri fulltrúa á Evrópuþinginu en það er hins vegar ekki eina ástæðan fyrir því að þeim tekst jafnan vel að ná markmiðum sínum. Stór ríki hafa meira fjármagn og meiri mannauð til að byggja upp sérfræðiþekkingu í málefnum sem snerta hagsmuni þeirra. Þessi sérfræðiþekking gerir þeim betur kleift en smáríkjunum að rökstyðja málstað sinn á sannfærandi hátt gagnvart stofnunum sambandsins og öðrum aðildarríkjum. Stóru ríkin nýta sér öfluga og viðamikla stjórnsýslu sína til þess að beita sér á víðum grundvelli fjölbreyttra málefna og þurfa ekki að forgangsraða hagsmunum sínum á sama hátt og smáríki.

Möguleikar smáríkja til áhrifa innan ESB eru því að vissu leyti heftir sökum fámennis og smæðar stjórnsýslunnar. Þau geta ekki beitt sér á jafn mögum sviðum og stærri ríkin og þurfa því að forgangsraða málefnum í samræmi við mikilvægi hagsmuna sinna. Þannig geta þau einbeitt sér að mikilvægum málaflokkum og eytt minni tíma og kröftum í málefni sem eru síður mikilvæg. Á hinn bóginn byggja smáríki þjóðarframleiðslu sína á færri atvinnugreinum og því geta ákvarðanatökur sem þær snerta haft afdrifarík áhrif á þjóðirnar.


Helle Thorning Schmit forsætisráðherra Danmerkur og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnarinnar. Myndin var tekin við opinbera athöfn þar sem Danmörk tók við forsæti ráðsins.

Til að bregðast við þeim takmörkunum sem fylgja smæðinni hafa smáríki lagt áherslu á að byggja upp óformleg tengsl við stofnanir Evrópusambandsins, einkum framkvæmdastjórnina sem á frumkvæði að allri nýrri löggjöf. Með því að koma snemma að ákvarðanatökuferlinu reyna smáríkin að hafa áhrif á mál á meðan þau eru enn í mótun í stað þess að standa andspænis orðnum hlut þegar mál koma til afgreiðslu í ráðinu og þinginu. Möguleiki smáríkja til þess að taka við forsæti ráðsins er mikilvægur þáttur í að koma málefnum þeirra á framfæri en smáríki hafa jafnan reynt að nýta þann tíma sinn vel. Aðildarríkin skiptast á að fara með formennsku í ráðinu en hvert ríki gegnir formennsku í 6 mánuði í senn. Finnland náði til að mynda að knýja fram meginþætti Norðurslóðaáætlunarinnar (e. The Northern Dimension) auk þess að auka gegnsæi stofnana innan sambandsins.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.1.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver er staða smáríkja innan ESB?“. Evrópuvefurinn 27.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60223. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Páll Vilhjálmsson 4.4.2012

Í þessu svari er löngu máli eytt í að draga fjöður yfir tvær tölulegar staðreyndir um áhrif Íslands sem smáríkis í ESB.

Ísland fengi 6 þingmenn af 750 á Evrópuþinginu, sem eru 0,8 prósent áhrif.

Ísland fengi um 0,9 prósent atkvæða í ráðinu, líkt og Malta í dag. Í framtíðinni mun atkvæðavægið minnka niður í 0,08 prósent.

Það er miður að vettvangur sem gefur sig út fyrir að vera hlutlaus skuli leggja sig fram um að sveipa umræðuna um ESB-umsóknina þoku.

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson 11.4.2012

Sæll Páll og takk fyrir athugasemdina.

Það er sjálfsagt mál að bæta frekari tölulegum upplýsingum við svarið. Það er vissulega satt að ef til inngöngu Íslands í ESB kæmi fengi Ísland 6 þingmenn á Evrópuþinginu sem myndi samsvara 0,8% af heildarfjölda allra þingmanna, líkt og kemur fram í svari Evrópuvefsins við spurningunni ´Hverju breytir Lissabon-sáttmálinn í vægi aðildarríkjanna innan Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar?´

Sömuleiðis má áætla að atkvæðavægi Íslands innan ráðsins yrði það sama og Möltu en nánari umfjöllun um atkvæðavægi ríkja í ráðinu er að finna í svari við spurningunni ´Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?´

Við höfum bætt tenglum í þessi svör við svarið og vonum að þér finnist þetta skýrara núna.