Spurning

Evruríkin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Evruríkin eru þau aðildarríki Evrópusambandsins sem hafa tekið upp evru (€) sem gjaldmiðil og falið Seðlabanka Evrópu stjórn sameiginlegrar peningamálastefnu. ESB-ríkjum ber að taka upp evru að uppfylltum svokölluðum Maastricht-skilyrðum sem kveða á um tilteknar efnahagslegar viðmiðanir um samleitni. Nánar er fjallað um skilyrðin fyrir upptöku evrunnar í svari við spurningunni Getum við tekið upp evru ef við göngum í Evrópusambandið?

Evran var innleidd sem lögeyrir samtímis í tólf ríkjum 1. janúar 2002, það er í Austurríki, Belgíu, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Lúxemborg, Portúgal, Spáni og Þýskalandi. Nánar er fjallað um innleiðingu evrunnar í svari við spurningunni Hvenær og hvernig var gjaldmiðlum ESB-ríkja skipt út fyrir evru?

Af þeim löndum sem gengu í ESB við stækkanir sambandsins árið 2004 og 2007 hafa fimm ríki uppfyllt Maastricht-skilyrðin og tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau eru Eistland, Kýpur, Malta, Slóvakía og Slóvenía. Evruríkin eru því 17 talsins í dag.

Tvö aðildarríki, Bretland og Danmörk, hafa formlega samið um varanlega undanþágu frá því að vera skuldbundin til að taka upp evruna. Eftir standa átta aðildarríki sem eru mislangt á veg komin með að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Þau eru Búlgaría, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Svíþjóð, Tékkland og Ungverjaland.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela