Spurning

Hvenær og hvernig var gjaldmiðlum ESB-ríkja skipt út fyrir evru?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í janúar árið 1999 hófst þriðji og síðasti áfangi efnahags- og myntbandalagsins með formlegum hætti. Sameiginlegur gjaldmiðill, evran (€), var þá tekinn upp sem opinber gjaldmiðill í þeim ríkjum ESB sem uppfylltu svonefnd Maastricht-skilyrði. Leiðin sem farin var við upptöku evrunnar, Madríd-leiðin, dregur nafn sitt af fundi ráðs ESB sem átti sér stað í Madríd í maí 1995 þar sem ákveðið var að þriðji áfangi efnahags- og myntbandalagsins mundi hefjast fjórum árum síðar.

Madríd-leiðin fól í sér þriggja ára aðlögunartímabil við innleiðingu sameiginlega gjaldmiðilsins:

  • 31. desember 1998 var gengi gjaldmiðla þátttökuríkjanna endanlega fest við sameiginlegu myntina.
  • 1. janúar 1999 varð evran opinber gjaldmiðill í þátttökulöndunum en fyrst um sinn var hún aðeins notuð sem bókhaldsmynt. Innlendir gjaldmiðlar urðu undireiningar (e. sub-unit) evrunnar og voru áfram í umferð og tvöföld verðlagning hófst. Stjórnvöld, fjármálastofnanir og fyrirtæki byrjuðu að stunda rekstur í evrum, til að mynda í heildsöluviðskiptum og skuldabréfaútgáfu.
  • 1. janúar 2002 hófst dreifing evruseðla og -myntar og evran varð lögeyrir í evruríkjunum. Í fyrstu voru bæði evran og innlendir gjaldmiðlar í umferð en smám saman var dregið úr tvöfaldri umferð gjaldeyris og 1. mars 2002 (fyrr í sumum evruríkjum) var einungis tekið á móti evrum í almennum viðskiptum á evrusvæðinu.


Ellefu ríki tóku þátt í þriðja áfanga efnahags- og myntbandalagsins þegar hann hófst árið 1999: Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Tveimur árum síðar var Grikkland talið hafa uppfyllt Maastricht-skilyrðin og fékk aðild að þriðja áfanganum.

Evran var því innleidd sem lögeyrir samtímis í ofangreindum tólf löndum 1. janúar 2002. Um 14 milljarðar evruseðla og 52 milljarðar evrumynta voru framleidd fyrir þann tíma. Þar af var tæplega 8 milljörðum evruseðla og 40 milljörðum evrumynta dreift milli 218 þúsunda banka og pósthúsa, 2,8 milljóna sölustaða og 302 milljóna manna í upphafi janúar 2002.

Tvö ríki, Danmörk og Bretland, hafa kosið að taka ekki þátt í þriðja áfanganum og samið um varanlega undanþágu frá upptöku evru við sambandið. Af þeim löndum sem gengu í ESB við stækkanirnar árið 2004 og 2007 hafa fimm ríki uppfyllt Maastricht-skilyrðin og tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau eru Eistland, Kýpur, Malta, Slóvakía og Slóvenía. Evruríkin eru því 17 talsins í dag. Þá standa eftir átta aðildarríki sem eru mislangt á veg komin með að uppfylla Maastricht-skilyrðin en þau eru Búlgaría, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Svíþjóð, Tékkland og Ungverjaland. Nánar er fjallað um hvernig aðildarríki ESB skiptir út gjaldmiðli sínum fyrir evru í svari við spurningunni Hvernig er gjaldmiðli í ESB-ríki skipt út fyrir evru?

Heimild

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.7.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvenær og hvernig var gjaldmiðlum ESB-ríkja skipt út fyrir evru?“. Evrópuvefurinn 27.7.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62974. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela