Spurning

Hver var afstaðan til aðildar að ESB samkvæmt skoðanakönnunum í umsóknarríkjum árin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur, í þeim löndum sem þær voru haldnar?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að Evrópusambandinu fóru fram í 15 af 28 núverandi aðildarríkjum sambandsins. Fjallað er um niðurstöður atkvæðagreiðslnanna í svari við spurningunni Hafa öll aðildarríki ESB kosið í lýðræðislegri kosningu um aðild að ESB?

Góðar upplýsingar um afstöðuna til aðildar í umsóknarríkjum, það er fyrir inngöngu þeirra í sambandið, eru til fyrir ríkin tólf sem fengu aðild árin 2004 og 2007. En á árunum 2001 til 2003 voru í fyrsta sinn gerðar samræmdar kannanir á afstöðunni til aðildar í umsóknarríkjum (Candidate Countries Eurobarometer) á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Sambærileg gögn um afstöðuna fyrir aðild í þeim ríkjum sem gengu í sambandið fyrir árið 2004 eru ekki fyrir hendi. Til þess að sömu forsendur liggi til grundvallar samanburði milli landanna og til einföldunar á framsetningu efnisins verður aðeins notast við Eurobarometer-kannanirnar í þessu svari.


Í níu af ríkjunum tólf, sem ofannefnd gögn ná til, var kosið um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu og verður einblínt á þau lönd hér. Þetta eru Eistland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Ekki var kosið á Kýpur, í Rúmeníu og Búlgaríu.

Kannanirnar fjórar sem hér eru lagðar til grundvallar voru gerðar í október 2001 (K1), september og október 2002 (K2), maí 2003 (K3) og í febrúar og mars árið 2004 (K4). Á myndinni hér að neðan tákna súlurnar K1, K2 og K3 skiptingu svara almennings við spurningunni „Yrði aðild (þíns heimalands) að ESB almennt góð eða slæm?“. Svarmöguleikarnir voru fjórir góð - hvorki góð né slæm - slæm - veit ekki, en með þeim voru einnig taldir þeir sem ekki svöruðu spurningunni.

Í fjórðu súlunni (Þ) má til samanburðar sjá skiptingu atkvæða þeirra sem kusu með (ljósblátt) og á móti (bleikt) aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunum árið 2003. Síðasta súlan (K4) sýnir viðhorfin til aðildar í könnun Eurobarometer sem gerð var að loknum öllum þjóðaratkvæðagreiðslunum og í aðdraganda formlegrar inngöngu ríkjanna þann 1. maí 2004. Í þeirri könnun var spurt „Verður aðild (þíns heimalands) að ESB almennt góð eða slæm?“.


Smellið á myndina til að stækka hana.

Eins og sjá má hér að ofan var töluverður munur milli landa á jákvæðu (blátt) og neikvæðu (rautt) viðhorfi til aðildar, í fyrstu könnununum þremur. Hópur þeirra sem tók ekki beina afstöðu, það er taldi aðild hvorki góða né slæma (grænt), var hins vegar svipaðari að stærð í löndunum níu, eða á bilinu 20%, í Ungverjalandi, til um það bil 40%, í Eistlandi og Lettlandi. Í flestum umsóknarríkjunum níu héldust hlutföll þeirra sem töldu að aðild að Evrópusambandinu yrði góð, slæm eða hvorki né, tiltölulega stöðug á árunum 2001 til 2003, þótt heldur hafi fjölgað í hópi jákvæðra. Mestar breytingar á viðhorfi til aðildar milli fyrstu kannananna þriggja urðu á árunum 2002 til 2003 í Litháen og Slóveníu, þar sem þeim sem voru jákvæðir í garð aðildar fjölgaði um um það bil 15% milli ára.

Mestur stuðningur við aðild, á árunum 2001 til 2003, var í Ungverjalandi og Slóvakíu eða um og aðeins yfir 60%. Í þessum sömu löndum mældist einnig minnst neikvæð afstaða til aðildar eða í kringum 5%. Minnstur stuðningur við aðild, á árunum 2001 til 2003, mældist í Eistlandi og Lettlandi þar sem þeir sem höfðu jákvæð viðhorf til aðildar voru á bilinu 31 til 37% aðspurðra.


Í öllum umsóknarríkjunum voru þeir sem töldu að aðild yrði góð umtalsvert fleiri en þeir sem töldu að aðild yrði slæm. En hlutfall þeirra sem höfðu neikvætt viðhorf til aðildar var oftast í kringum 10% eða lægra. Aðeins í Eistlandi, Lettlandi og á Möltu töldu yfir 15% aðspurðra að aðild yrði almennt slæm; flestir á Möltu þar sem 31% aðspurðra voru neikvæð í garð aðildar árið 2001 en hlutfallið lækkaði í 19% árið 2003. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að við gerð þriðju könnunarinnar höfðu þegar farið fram þjóðaratkvæðagreiðslur á Möltu, í Slóveníu og Ungverjalandi en í Litháen, Póllandi, Slóvakíu og Tékklandi voru þær á næsta leyti. Í Eistlandi og Lettlandi var kosið síðar á árinu.

Af þeim ríkjum sem gengu í ESB árið 2004 hlaut aðild mestan stuðning kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Slóvakíu eða 94%. Næstmestur stuðningur við inngöngu í ESB var í þjóðaratkvæðagreiðslunum í Litháen (91%), Slóveníu (90%) og því næst í Ungverjalandi (84%). Á Möltu var aðild samþykkt með fæstum greiddum atkvæðum en aðeins 53,6% kusu með aðild í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Næstminnstur stuðningur var við aðild í þjóðaratkvæðagreiðslunum í Eistlandi og Lettlandi, eða 67%.

Þótt myndin hér að ofan virðist sýna að þeir sem fram að þjóðaratkvæðagreiðslunum höfðu hvorki talið að aðild yrði góð né slæm hafi upp til hópa sagt já við aðild í þjóðaratkvæðagreiðslunum, gefa gögnin ekki tilefni til að dregnar séu af þeim slíkar ályktanir. Viðhorfskönnunin frá árinu 2004 (K4) staðfestir þetta en örfáum mánuðum fyrir formlega inngöngu ríkjanna í sambandið hafði hlutfall þeirra sem höfðu jákvætt viðhorf til aðildar lækkað í öllum ríkjunum níu samanborið við könnunina 2003 (K3). Aðeins í tveimur löndum, á Möltu og í Litháen, náði hlutfall þeirra sem töldu aðild almennt verða góða 50%. Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslnanna ná þar að auki aðeins til skiptingar já- og nei-atkvæða en ekki til að mynda til þeirra sem skiluðu auðum kjörseðli. Þá var kosningaþátttaka mjög mismunandi í löndunum níu, allt niður í 52% í Slóvakíu upp í rúm 90% á Möltu, eins og fram kemur í áðurnefndu svari við spurningunni Hafa öll aðildarríki ESB kosið í lýðræðislegri kosningu um aðild að ESB?


Smellið á myndina til að stækka hana.

Á undanförnum árum hafa viðhorfskannanir Eurobarometer einnig mælt viðhorf Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu. Stærstur hluti landsmanna hefur stöðugt talið að það yrði slæmt fyrir Ísland að ganga í ESB og minnihluti að það yrði gott. Lítið eitt stærri hluti telur hvorki að það yrði gott né slæmt. Nýjustu Eurobarometer-niðurstöðurnar, sem birtar hafa verið, eru úr könnun sem gerð var vorið 2011. Samkvæmt henni fækkaði þeim lítillega sem telja að það væri gott að Ísland gengi í ESB, úr 28 í 26%, sem og þeim sem telja það hvorki gott né slæmt, úr 30 í 28%. Þeim sem telja að aðild Íslands að ESB yrði almennt slæm fjölgaði hins vegar úr 34% í 41% frá nóvember 2010 til maí 2011.

Eins og umfjöllunin hér að ofan sýnir gefa þessar niðurstöður hins vegar lítið tilefni til spádóma um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Heimildir:

Upprunaleg spurning:

Hver var niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslum um aðild að Evrópusambandinu þar sem þær fóru fram, og hver var staðan í skoðanakönnunum í sömu löndum mánuðina og misserin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslurnar?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.11.2012

Tilvísun

Bryndís Pjetursdóttir. „Hver var afstaðan til aðildar að ESB samkvæmt skoðanakönnunum í umsóknarríkjum árin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur, í þeim löndum sem þær voru haldnar?“. Evrópuvefurinn 9.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63457. (Skoðað 28.1.2025).

Höfundur

Bryndís Pjetursdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela