Spurning

Hvernig innleiðir Ísland tilskipanir og annað frá ESB?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Þar sem reglurnar um bein réttaráhrif og bein lagaáhrif eru ekki hluti af EES-samningnum verður löggjöf ESB aðeins hluti af íslensku réttarkerfi með milligöngu Íslands.

7. gr. EES-samningsins skuldbindur EFTA/EES-ríkin til að innleiða afleidda löggjöf frá ESB sem fellur innan sviðs EES-samningsins. Í greininni segir:

Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameignlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:

a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;

b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.


Skylt er að taka gerðir frá ESB upp í EES-samninginn ef þær falla innan gildissviðs hans.

Sameiginlega EES-nefndin ákveður hvort löggjöf frá ESB falli innan sviðs EES-samningsins. Ákveði nefndin að svo sé, þurfa EFTA/EES-ríkin að innleiða löggjöfina.

Af efni 7. greinar má ráða að einungis sé skylt að taka reglugerðir og tilskipanir upp í landsrétt en ekki aðrar gerðir. Til afleiddrar löggjafar Evrópusambandsins teljast þó einnig ákvarðanir (e. decisions) og tilmæli og skoðanir (e. recommendations).

Við innleiðingu EES-gerða eru almennt notaðar tvær aðferðir, umritunaraðferðin eða tilvísunaraðferðin.

Með umritun er átt við að ákvæði gerðar séu tekin efnislega upp í sett lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eða með setningu nýrra laga eða stjórnvaldsfyrirmæla. Margar gerðir gera ráð fyrir því að efnisákvæði þeirra séu umrituð eða nánar útfærð í landsrétti viðkomandi ríkis. Þetta á alltaf við um tilskipanir og ákvarðanir sem eru aðeins bindandi að því er markmið þeirra varðar og veita val um form og aðferð við framkvæmdina.

Innleiðing með tilvísun þýðir hins vegar að gerð er veitt gildi með því að í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum er mælt fyrir um að tiltekin gerð öðlist gildi, án þess að ákvæði gerðarinnar séu tekin upp í lögin eða stjórnvaldsfyrirmælin. Ef gerð er innleidd með lögum þar sem vísað er til hennar þarf hún almennt að birtast sem fylgiskjal með lögunum. Ef gerð er hins vegar innleidd með stjórnvaldsfyrirmælum er nægilegt að vísa til birtingar gerðarinnar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB. Ef gerð er tekin upp sem stjórnvaldsfyrirmæli er jafnframt nauðsynlegt að gæta þess að fyrir henni sé nægileg stoð í almennum lögum. Tilvísunaraðferðin kemur fyrst og fremst til greina við innleiðingu reglugerða sem ber að innleiða í heild sinni.

Tilkynna skal Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, með hvaða hætti EES-gerðir hafa verið innleiddar í íslenskan rétt.

Ákveði sameiginlega EES-nefndin að gerð frá ESB skuli tekin upp í EES-samninginn öðlast hún gildi næsta dag nema annað sé sérstaklega tekið fram. Gerðir verða í raun skuldbindandi fyrir Ísland um leið og þær taka gildi og því verða íslensk stjórnvöld að innleiða þær eins fljótt og auðið er.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.8.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hvernig innleiðir Ísland tilskipanir og annað frá ESB?“. Evrópuvefurinn 30.8.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65695. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela