Spurning

Stendur til að fleiri ríki fái aðild að EES-samningnum?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Undanfarin misseri hefur það verið til umræðu innan Evrópusambandsins að smáríkin Andorra, Mónakó og San Marínó verði þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu með aðild að EES-samningnum eða fái aðgang að innri markaði Evrópusambandsins með samningi að fyrirmynd EES-samningsins. Þá hefur ESB einnig lagt til að Sviss gæti staðið hið sama til boða, þó svo að forráðamenn í Sviss líti ekki svo á að tvíhliðasamskiptum ríkisins við ESB sé ábótavant. Þessar hugmyndir eru á frumstigi og vert að taka fram að EFTA/EES-ríkin munu taka sjálfstæða afstöðu í málinu óski ríkin eftir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.

***


Kortið sýnir staðsetningu þeirra Evrópuríkja sem jafnan eru kölluð örríki. Þau eru Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkanið.
Um nokkurra ára skeið hefur Evrópusambandið leitað að viðeigandi fyrirkomulagi fyrir samvinnu við þau Evrópuríki sem kjósa að standa utan sambandsins en vilja þrátt fyrir það halda nánum tengslum við sambandið. Hér er einkum um að ræða smáríkin Andorra, Mónakó og San Marínó auk Sviss. Aðstæður þessara ríkja eru sérstakar þar sem hagkerfi þeirra eru að miklu leyti tengd innri markaði sambandsins og samskipti þeirra við grannríki í Evrópu eru mjög náin. Í skýrslu sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar frá árinu 2013 um samskipti ESB, EFTA-ríkjanna og ofangreindra smáríkja kemur fram að til þess að ríkin geti styrkt og dýpkað tengsl sín við sambandið séu raunhæfustu kostirnir fyrir þau annaðhvort að verða þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu með aðild að EES-samningnum eða fá aðgang að innri markaði Evrópusambandsins með samningi að fyrirmynd EES-samningsins.

EES-samningurinn eða annar sambærilegur samningur er talinn álitlegur kostur af hálfu Evrópusambandsins í þessu samhengi. Honum var á sínum tíma komið á fót fyrir hóp ríkja sem bjuggu við svipaðar aðstæður og ofangreind smáríki. Þetta voru lítil og meðalstór iðnríki, sem áttu erfitt með að taka yfir landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þau voru ekki tilbúin til að taka fullan þátt í Evrópusamstarfinu en töldu þó hagsmunum sínum betur borgið með því að halda nánum tengslum við ESB og tryggja aðgang sinn að innri markaðinum. Sökum þessa hefur því stundum verið haldið fram að EES-samningurinn feli í sér nokkurskonar aukaaðild að ESB.

Sviss hefur nokkra sérstöðu þar sem ríkið er aðili að EFTA en er jafnframt eina EFTA-ríkið sem ekki er aðili að EES-samningnum. Sviss hefur hingað til tekið þátt í innri markaði ESB í gegnum fjölda tvíhliða samninga við sambandið á einstaka sviðum. Tvíhliða samningar Sviss og ESB eru komnir á áttunda tug. Þessi nálgun Sviss hefur í seinni tíð orðið því sífellt erfiðari. ESB hefur þar með lagt áherslu á það við Sviss að tryggja þurfi beina þátttöku Sviss á innri markaðinum. Ein leið til þessa væri þátttaka Sviss í EES-samningnum. Þessi ályktun Evrópusambandsins hefur þó fallið í grýttan jarðveg hjá sumum forráðamönnum í Sviss sem telja að hin tvíhliða leið sem Sviss hefur tamið sér í samskiptum sínum við ESB sé ekki komin á endastöð né þarfnist hún endurskoðunar. Ítarlegri umfjöllun um samskipti Sviss og ESB er að finna í svari við spurningunni Hvað er átt við með svissnesku leiðinni í samskiptum ríkja við ESB?

Hugmyndir um mögulega aðild annarra ríkja að ESS-samningnum eru enn á frumstigi. Nokkrir samráðsfundir hafa átt sér stað á milli ofangreindra smáríkja og ESB í þeim tilgangi að skoða hvort hér sé um raunhæfan möguleika að ræða. Evrópusambandið stefnir að því að skila ítarlegri skýrslu fyrir lok árs 2013 um það hver næstu skref í þessu ferli gætu orðið. Þá er vert að árétta að hér er einungis um sjónarmið ESB að ræða á frumstigi máls en EFTA/EES-ríkin munu taka sjálfstæða afstöðu í málinu ef Andorra, Mónakó, San Marínó og, ef svo ólíklega vildi til, Sviss óska eftir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Um slíka aðild þyrfti að semja sérstaklega en samkvæmt 128. gr. EES-samningsins eru einugis tvær mögulegar leiðir til þess að gerast aðili að samningnum, annarsvegar með aðild að EFTA og hinsvegar með aðild að ESB. Ef til aðildar þessara ríkja kæmi þyrfti óhjákvæmilega að endurskoða og laga stofnanir EES að breyttum aðstæðum.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.10.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Stendur til að fleiri ríki fái aðild að EES-samningnum?“. Evrópuvefurinn 25.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66119. (Skoðað 28.1.2025).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela