Spurning

Hvaða evruríki uppfylla Maastricht-skilyrðin?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Ekkert evruríkjanna 17 uppfyllti öll Maastricht-skilyrðin árið 2011, þetta kemur fram í svari Össurar Skarphéðinssonar þáverandi utanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi í febrúar 2013. Níu ríki uppfylltu skilyrðið um verðstöðugleika og ellefu ríki uppfylltu skilyrðið um vexti. Ívið færri uppfylltu Maastricht- skilyrðin um opinber fjármál en sex aðildarríki uppfylltu skilyrðið um afkomu hins opinbera og fimm ríki uppfylltu skilyrðið um heildarskuldir hins opinbera. Bága stöðu evruríkjanna gagnvart Maastricht-skilyrðunum um opinber fjármál má rekja til ríkisskuldakreppunnar sem brast á í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

***

Þau 17 aðildarríki Evrópusambandsins sem eru fullir þátttakendur í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði um efnahagslega samleitni sem nefnd eru Maastricht-skilyrðin. Skilyrðin eru fimm talsins og lúta að vöxtum, verðstöðugleika, ríkisfjármálum (afkomu og heildarskuldum hins opinbera) og stöðugleika í gengismálum. Sum evruríkjanna hafa átt erfitt með að uppfylla og viðhalda viðmiðunum í gegnum tíðina, til dæmis uppfylltu einungis sex evruríki Maastricht-skilyrðin að fullu við inngöngu í EMU líkt og fram kemur í skýrslu Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál.


Evrur.

Í skriflegu svari Össurar Skarphéðinssonar þáverandi utanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á Alþingi 11. febrúar 2013 er staða einstakra evruríkja gagnvart Maastricht-skilyrðunum árið 2011 tekin saman (sjá töflu hér að neðan). Skilyrðið um verðstöðugleika kveður á um að verðbólga skuli ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina. Árið 2011 voru það Írland, Svíþjóð og Tékkland og var viðmiðunargildið 3,1%. Þau evruríki sem uppfylltu skilyrðið um verðstöðugleika þá voru Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Malta, Slóvenía, Spánn og Þýskaland.

ESB-ríki innan evrusvæðisins Verðbólga (%) Vextir

(%)
Afkoma hins opinbera

(% af VLF)
Heildarskuldir hins opinbera

(% af VLF)
Austurríki 3,6 3,3 -2,5 72,4
Belgía 3,5 4,2 -3,7 72,4
Eistland 5,1 Tölur ekki til 1,1 6,1
Finnland 3,3 3,0 -0,6 49,0
Frakkland 2,3 3,3 -5,2 86,0
Grikkland 3,1 15,8 -9,4 170,6
Holland 2,5 3,0 -4,5 65,5
Írland 1,2 9,6 -13,4 106,4
Ítalía 2,9 5,4 -3,9 120,7
Kýpur 3,5 5,8 -6,3 71,1
Lúxemborg 3,7 2,9 -03 18,3
Malta 2,5 4,5 -2,7 70,9
Portúgal 3,6 10,2 -4,4 108,1
Slóvakía 4,1 4,5 -4,9 43,3
Slóvenía 2,1 5,0 -6,4 46,9
Spánn 3,1 5,4 -9,4 69,3
Þýskaland 2,5 2,6 -0,8 80,5
--- --- --- --- ---
Viðmiðunargildi 3,1 5,2 -3,0 60,0

Samkvæmt skilyrðinu um vexti skulu nafnvextir langtímaskuldabréfa ekki vera meira en 2% hærri en langtímavextir í þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina. Almennt byggja útreikningarnir á því að stuðst er við meðaltal vaxta í þeim þremur aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem verðbólga er lægst en eins og áður kom fram var verðbólga lægst á Írlandi, í Svíþjóð og Tékklandi. Að þessu sinni var þó ekki stuðst við vaxtatölur frá Írlandi þar sem vextir þar voru langt umfram meðaltal í hinum aðildarríkjunum og var í staðinn aðeins tekið mið af vaxtaprósentunum í Svíþjóð og Tékklandi. Viðmiðunargildið fyrir vexti var 5,2%. Þau ríki sem uppfylltu vaxtaskilyrðið voru Austurríki, Belgía, Bretland, Finnland, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Malta, Slóvakía, Slóvenía og Þýskaland.

Maastricht-skilyrðin um opinber fjármál eru tvenns konar. Annars vegar að halli á ríkisrekstri sé ekki meiri en 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og hins vegar að skuldir hins opinbera séu ekki meiri en 60% af VLF, eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%. Þau aðildarríki sem uppfylltu skilyrðið um afkomu hins opinbera eða halla á ríkisrekstri voru Austurríki, Eistland, Finnland, Lúxemborg, Malta og Þýskaland. Mestur var hallinn á Írlandi eða 13,4% af VLF.

Skilyrðið um heildarskuldir hins opinbera uppfylltu einungis fimm ríki, Eistland, Finnland, Lúxemborg, Slóvakía og Slóvenía. Í tilfelli Grikklands, Ítalíu, Portúgals og Írlands voru skuldir hins opinbera komnar vel yfir 100%. Bága stöðu evruríkjanna gagnvart Maastricht-skilyrðunum um opinber fjármál má rekja til ríkisskuldakreppunnar sem brast á í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2008.

Í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum kemur fram að líklega muni Ísland uppfylla flest skilyrðin fyrir upptöku evru á allra næstu árum óháð því hvort Ísland verði aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Samkvæmt tölum frá árinu 2011 uppfyllti Ísland aðeins eitt af Maastricht-skilyrðunum en það er skilyrðið um langtímavexti. Ítarlega umfjöllun um stöðu Íslands gagnvart viðmiðunum er að finna í svari við spurningunni Uppfyllir Ísland Maastricht-skilyrðin núna?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.5.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvaða evruríki uppfylla Maastricht-skilyrðin?“. Evrópuvefurinn 24.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65337. (Skoðað 23.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela