Spurning
Hvar eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins?
Spyrjandi
Birnir Snær Helgason, f. 1991
Svar
Evrópusambandið sjálft á sér ekki einar höfuðstöðvar. Sérhver stofnun sambandsins hefur aðsetur á ákveðnum stað og er staðsetningin tilgreind í bókun 6 við Sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins (Lissabon-sáttmálann).- Evrópuþingið (European Parliament) hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi og kemur þar saman til mánaðarlegra þingfunda svo og til fundar um fjárlagafrumvarp. Aðrir allsherjarfundir eru haldnir í Brussel og koma nefndir þingsins einnig saman þar. Aðalskrifstofa Evrópuþingsins og þjónustudeildir þess eru hins vegar í Lúxemborg.
- Ráðið (Council of the European Union), sem áður hét ráðherraráðið (Council of Ministers), hefur aðsetur í Brussel en heldur fundi sína í Lúxemborg í apríl, júní og október. Það kemur saman samkvæmt fundarboði forseta ráðsins, sem sendir það út að eigin frumkvæði eða að ósk einhvers þess sem á sæti í ráðinu eða framkvæmdastjórnarinnar.
- Leiðtogaráðið (European Council) kemur saman tvisvar á hverju sex mánaða tímabili, og sér forseti þess um að kalla það saman. Það hefur ekki formlegt aðsetur en fundar yfirleitt í Brussel og nýtur aðstoðar aðalskrifstofu ráðsins.
- Framkvæmdastjórnin (European Commission) hefur aðsetur í Brussel. Hún kemur yfirleitt saman á hverjum miðvikudegi í Brussel nema þær vikur sem Evrópuþingið þingar í Strassborg, þá fundar hún einnig í Strassborg. Í samræmi við ákvörðun sem tekin var í tengslum við Samrunasáttmálann (Merger Treaty) frá 1967 eru ákveðnar þjónustudeildir framkvæmdastjórnarinnar þó staðsettar í Lúxemborg, meðal annars Útgáfustofa Evrópusambandsins (Publications Office of the European Union) og Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat).
- Dómstóll Evrópusambandsins (Court of Justice of the European Union) hefur aðsetur í Lúxemborg.
- Endurskoðunarrétturinn (Court of Auditors) hefur aðsetur í Lúxemborg.
- Efnahags- og félagsmálanefndin (European Economic and Social Committee, EESC) hefur aðsetur í Brussel.
- Svæðanefndin (Committee of the Regions, CoR) hefur aðsetur í Brussel.
- Fjárfestingarbanki Evrópu (European Investment Bank) hefur aðsetur í Lúxemborg.
- Seðlabanki Evrópu (European Central Bank) hefur aðsetur í Frankfurt am Main í Þýskalandi.
- Evrópulögreglan (Europol) hefur aðsetur í Haag í Hollandi.
- Bókun 6 (um aðsetur stofnananna og tiltekinna aðila, skrifstofa, sérstofnana og þjónustudeilda Evrópusambandsins) við Sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins (Lissabon-sáttmálinn)
- Ákvörðun fulltrúa aðildarríkja Evrópubandalaganna frá 8. apríl 1965 um staðsetningu stofnana og deilda Evrópubandalaganna
- Mynd sótt á heimasíðu Dómstóls Evrópusambandsins 24. júní 2011
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur24.6.2011
Efnisorð
Tilvísun
Þórhildur Hagalín. „Hvar eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 24.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=12928. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela