Spurning

Er Lettland aðili að Evrópska efnahagssvæðinu?

Spyrjandi

Ingvi Ingvason

Svar

Já, Lettland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, eins og öll önnur aðildarríki Evrópusambandsins, og hefur verið það síðan það gekk í sambandið árið 2004. Lettland er meðal þeirra fyrrum Sovétríkja sem hafa leitað nánari tengsla við Vesturlönd eftir að hafa endurheimt sjálfstæðið sitt á ný í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

***

Lettland er eitt af Eystrasaltslöndunum, ásamt Litháen og Eistlandi, sem glötuðu sjálfstæði sínu í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar þegar þau voru innlimuð í Sovétríkin. Rétt rúmri hálfri öld síðar lýsti Lettland, fyrst Eystrasaltsríkjanna, yfir sjálfstæði sínu gagnvart Sovétríkjunum og var Ísland fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði þess árið 1991.


Íslandstorg vígt í Riga, höfuðborg Lettlands, í ágúst 2011. Minnismerkið er helgað því að Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Lettlands. Á myndinni sjást Girts Valdis Kristovskis þáverandi utanríkisráðherra Lettlands og Össur Skarphéðinsson núverandi utanríkisráðherra Íslands.

Síðan þá hefur Lettland fengið aðild að ýmsum evrópskum milliríkjastofnunum til að mynda Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (árið 1991) og Evrópuráðinu (árið 1995), en það gerðist einnig fullgildur aðili að Norður Atlantshafsbandalaginu (NATO) og Evrópusambandinu (ESB) árið 2004.

Sem aðili að Evrópusambandinu er Lettland jafnframt aðili að Evrópska efnahagssvæðinu sem er sameiginlegur innri markaður allra 28 aðildarríkja ESB og þriggja ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), það er Íslands, Liechtenstein og Noregs. Svæðinu var komið á fót með EES-samningnum sem tók formlega gildi 1. janúar 1994 og byggir á reglunum um fjórfrelsið, það er frjálsu flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Nánar er fjallað um eðli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í svari við spurningunni Hvert er eðli EES-samningsins?

Lettland er þingbundið lýðveldi og byggir stjórnarfar landsins á þrískiptingu ríkisvaldsins þar sem framkvæmdavaldið er í höndum forseta og ríkisstjórnar. Núverandi forseti, sem er kjörinn beinni kosningu, er Andris Bērziņš en hann tók við embættinu í júlí 2011. Þess má geta að fyrsti kvenforseti í Austur-Evrópu, Vaira Vike-Freiberge, var kjörinn í Lettlandi árið 1999.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.6.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Er Lettland aðili að Evrópska efnahagssvæðinu?“. Evrópuvefurinn 22.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=17635. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela