Spurning

Verður einokun fárra fyrirtækja á fiskimiðum ekki aflétt með inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Þorgrímur Sófus Þorgrímsson

Svar

Það er fátt sem bendir til þess að þau sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi sem nú fá úthlutað mestum árlegum aflaheimildum fengju minna fyrir sinn snúð komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er vegna þess að ákvarðanir um hlutdeild innlendra útgerða í árlegum landskvóta Íslands yrðu áfram í höndum íslenskra stjórnvalda. Ef þeim takmörkunum sem nú gilda um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi yrði aflétt gætu hins vegar orðið breytingar á eignarhaldi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og/eða ný sjávarútvegsfyrirtæki verið stofnuð á Íslandi af erlendum aðilum.

***

Ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kæmi yrði meginbreytingin á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu sú að ákvarðanir um heildarafla og veiðiheimildir einstakra aðildarríkja yrðu teknar af landbúnaðar- og sjávarútvegsráði Evrópusambandsins á grundvelli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika. Hvert ESB-ríki fyrir sig ákveður, í samræmi við sín landslög, hvernig það ráðstafar þeim aflaheimildum sem í hlut þess koma þannig að fiskveiðistjórnunarkerfið, sem nú er við lýði á Íslandi, mundi ekki taka grundvallarbreytingum við það eitt að Ísland gerðist aðili að ESB. Ákvarðanir um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og úthlutun aflaheimilda til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja yrðu eftir sem áður í höndum íslenskra stjórnvalda. Nánar er fjallað um möguleg áhrif aðildar að Evrópusambandinu á íslenskan sjávarútveg í svari við spurningunni Hversu mikið af heimilaðri veiði á ári hverju fengju togarar ESB að veiða í íslenskri landhelgi gengi Ísland í Evrópusambandið?

Þótt aðildarríkin hafi að meginstefnu sjálfstæði um hvernig þau úthluta sínum landskvóta mega úthlutunarkerfi þeirra þó ekki brjóta í bága við almennar reglur sambandsins. Þannig getur Evrópusambandið sett tæknilegar sóknartakmarkanir á einstök mið, til dæmis með því að banna eða takmarka heimildir til veiða með ákveðnum veiðarfærum. Þá getur sambandið einnig sett reglur er varða uppbyggingu eða endurreisn fiskistofna sem hafa verið ofveiddir. Slíkar reglur gætu í einhverjum tilvikum haft áhrif á úthlutun landskvótans til íslenskra útgerða.


Þorskveiðar um borð í Árna Friðrikssyni.

Í Evrópusambandinu eru litlar sem engar hömlur á fjárfestingum ríkisborgara ESB-ríkjanna í öðrum aðildarríkjum. Reglur um frjálsar fjármagnshreyfingar, frjálsa för launþega og staðfesturétt gilda jafnt um fyrirtæki í sjávarútvegi og öðrum iðnaði. Enn fremur eru engar takmarkanir á rétti ríkisborgara ESB-ríkja til að stofnsetja sjávarútvegsfyrirtæki í öðru aðildarríki og öllum launþegum í ESB-ríkjunum er frjálst að ráða sig til starfa hjá útgerðafyrirtækjunum í hvaða aðildarríki sem er.

Á grundvelli EES-samningsins er Ísland undanþegið reglum innri markaðarins um frjálsa fjármagnsflutninga að því er varðar fjárfestingar ríkisborgara ESB-ríkja í fiskveiðum og fiskvinnslu. Þessi undanþága er nánar útfærð í lögum (nr. 34/1991) um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri.

Í rýniskýrslu samninganefndar Íslands í sjávarútvegsmálum kemur fram að brýnt sé að finna sérlausnir fyrir Ísland varðandi áframhaldandi takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Niðurstöður viðræðna Íslands og ESB munu hins vegar leiða í ljós hvort slíkar sérlausnir verði fáanlegar. Sem dæmi má nefna að í aðildarsamningi Norðmanna, sem var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1994, var samið um þriggja ára aðlögunartíma til að afnema takmarkanir á erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi.

Sá möguleiki er því til staðar, komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, að eignarhald íslenskra útgerða tæki breytingum vegna aðkomu erlendra fjárfesta eða þá að erlendir aðilar stofni ný sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. Það mundi þó ekki nægja fyrir erlenda fjárfesta að stofna sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi til fá aðgang að miðunum heldur þyrftu þeir einnig að finna innlendan aðila sem væri tilbúinn til að selja þeim aflaheimildir sem hann hefði yfir að ráða.

Nokkur dæmi eru um að útgerðarfyrirtæki í aðildarríki (A) hafi freistað þess að fá aðgang að landskvóta aðildarríkis (B) með því að koma á fót útgerð í aðildarríki (B) eða kaupa ráðandi eignarhlut í útgerð sem starfa þar fyrir. Hugtakið kvótahopp (e. quota hopping) hefur verði notað um þessa starfsemi. Það er ótti margra að við aðild Ísland að ESB geti erlendir aðilar keypt ráðandi hlut í íslenskum útgerðum og þannig fengið aðgang að íslenskum veiðiheimildum. Nánar er fjallað um kvótahopp í svari við spurningunni Fengju erlendir togarar aðgang að veiðum innan íslenskrar efnahagslögsögu, óháð hugsanlegum útfærslum í aðildarsamningi Íslands og ESB, ef Ísland yrði aðili að ESB?

Rétt er hins vegar að vekja athygli á að í kvótahoppinu felst ekki að útgerð sem starfar í einu aðildarríki geti framselt veiðiheimildir sínar til útgerðar í öðru aðildarríki. Slíkt framsal aflaheimilda samræmist ekki sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Af ofansögðu er ljóst að það er alls óvíst hvort aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði í för með sér að fyrirtækjum sem nýta íslensk fiskimið mundi fjölga.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.11.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Verður einokun fárra fyrirtækja á fiskimiðum ekki aflétt með inngöngu í ESB?“. Evrópuvefurinn 23.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61185. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela