Spurning

Hvað er tveggja stoða kerfi EES-samningsins?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Stofnanalegum samskiptum fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópusambandsins á grundvelli EES-samningsins er gjarnan lýst sem tveggja stoða kerfi. Önnur stoðin er samsett úr stofnunum EFTA en hin úr stofnunum ESB. Á milli stoðanna tveggja eru sameiginlegar stofnanir samningsaðilanna sem eru vettvangur samstarfs og sameiginlegra ákvarðana.

***

Stofnanir gegna mikilvægu hlutverki við að ná markmiði EES-samningsins um „að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“ (1. grein EES-samningsins). Þær eiga að tryggja samráð um þróun sameiginlegra reglna, gæta þess að ákvæði samningsins séu í heiðri höfð og að túlkun þeirra sé með samræmdum hætti í aðildarríkjunum.

Samið var um stofnanirnar í EFTA-stoðinni í sérstökum samningi milli EFTA-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Samningarnir um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls annars vegar og fastanefnd EFTA hins vegar voru undirritaðir samtímis EES-samningnum, í maí árið 1992, og samningurinn um þingmannanefnd EFTA síðar í sama mánuði.


Stofnanauppbygging EES-samstarfsins er oft lýst sem tveggja stoða kerfi. Smellið til að stækka myndina.

Fastanefnd EFTA (e. Standing Committee of the EFTA states) er vettvangur pólitískrar umræðu EFTA-stoðarinnar. Þar eiga fastafulltrúar EFTA/EES-ríkjanna sæti ásamt fleiri fulltrúum. Nefndin hefur fimm undirnefndir til aðstoðar við sig og hefur hver þeirra sitt sérsvið með skírskotun til fjórfrelsisins. Undir þeim starfa margs konar sérfræðinga- og vinnuhópar. Meginhlutverk fastanefndarinnar og undirnefnda hennar er að vinna að mótun nýrra reglna, það er veita umsagnir um tillögur að nýrri löggjöf sem á upptök sín innan ESB, og undirbúa þannig fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Undirnefndirnar undirbúa fundi fastanefndarinnar á grundvelli tillagna frá sérfræðinganefndum EFTA. Ákvarðanir í fastanefndinni eru að meginreglu teknar samhljóða.

Þingmannanefnd EFTA (e. Committee of Members of Parliament) er skipuð þingmönnum þjóðþinga EFTA/EES-ríkjanna. Hún hefur ráðgefandi hlutverk varðandi framkvæmdina á EES-samningnum og er vettvangur þingmanna EFTA/EES-ríkjanna til að undirbúa fundi í sameiginlegu EES-þingmannanefndinni. Ráðgjafarnefnd EFTA (e. Consultative Committee) er skipuð fulltrúum atvinnulífsins í EFTA-ríkjunum. Hún hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum en helsta hlutverk fulltrúa nefndarinnar er þátttaka í sameiginlegu EES-ráðgjafarnefndinni.

Á toppi ESB-stoðarinnar trónir ráðið sem fer með lagasetningarvald í Evrópusambandinu ásamt Evrópuþinginu. Þar eru endanlegar ákvarðanir teknar af ráðherrum aðildarríkjanna, í mismikilli samvinnu við þingið eftir eðli máls, og eru fundir þess haldnir mjög reglulega. Fjöldi starfshópa og nefnda skipuðum sérfræðingum frá aðildarríkjunum undirbúa þau mál sem liggja fyrir ráðinu. Þessir aðilar vinna að tæknilegum úrlausnaratriðum og koma þeim á framfæri nefndar fastafulltrúa aðildarríkjanna (fr. Comité des représentants permanents, COREPER) þar sem iðulega eru fundnar lausnir í málum áður en þau eru lögð fyrir ráðið til staðfestingar.

Framkvæmdastjórnin hefur að meginreglu frumkvæðisrétt við samningu löggjafar í Evrópusambandinu og gegnir því lykilhlutverki við mótun nýrra ESB- og EES-reglna. Hún er sú stofnun í ESB-stoðinni sem EFTA-ríkin hafa mest aðgengi að. Efnahags- og félagsmálanefndin (e. Economic and Social Committee, ECOSOC) er skipuð fulltrúum vinnuveitenda, launafólks og neytenda í aðildarríkjum ESB. Nefndin gegnir veigamiklu hlutverki við veitingu umsagna um reglur og stefnur í mótun á fjölmörgum sviðum.

Hvor stoð fyrir sig hefur þar að auki stofnanir sem er ætlað að tryggja samræmda beitingu EES-löggjafarinnar. Af hálfu EFTA eru það EFTA-dómstóllinn annars vegar og Eftirlitsstofnun EFTA hins vegar en af hálfu ESB eru það dómstóll Evrópusambandsins annars vegar og framkvæmdastjórnin hins vegar. Sjálfstætt eftirlit með framkvæmd ákvæða samningsins var skilyrði sem ESB setti fyrir þátttöku EFTA-ríkjanna í innri markaðnum.


Frá sameiginlegum fundi fastanefndar EFTA, þingmannanefndar EFTA og ráðgjafarnefndar EFTA þann 15. nóvember 2011 í Brussel.

Stjórnmálaleg yfirstjórn EES-samningsins er í höndum EES-ráðsins (e. EEA Council). Það skipa fulltrúar í ráði ESB og framkvæmdastjórninni ásamt utanríkisráðherrum EFTA/EES-ríkjanna. Sú hefð hefur þróast að fulltrúar ESB eru yfirleitt utanríkisráðherra formennskuríkis ESB ásamt utanríkisráðherra næsta formennskuríkis og framkvæmdastjóra utanríkismála ESB. Ráðið fundar að jafnaði tvisvar á ári.

Sameiginlega EES-nefndin er mikilvægasta stofnun EES-samstarfsins. Hún kemur saman einu sinni í mánuði og er helsti vettvangur fyrir samráð og samstarf samningsaðilanna. Þar eiga sæti sendiherrar EFTA/EES-ríkjanna gagnvart ESB annars vegar og fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB hins vegar, auk þess sem fulltrúar aðildarríkja ESB eiga þar áheyrnarrétt. Hlutverk sameiginlegu EES-nefndarinnar er að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Í henni eru teknar ákvarðanir um upptöku ESB-gerða í EES-rétt og breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn í kjölfarið. Einnig fjallar nefndin um hugsanleg deilumál varðandi túlkun á samningnum og reglum, byggðum á honum, sem geta vandkvæðum í samskiptum samningsaðila. Hún skal komast að samhljóða niðurstöðu ella vísa henni til EES-ráðsins eða sérstakrar ríkjaráðstefnu eftir eðli máls. Sameiginlega EES-nefndin er eins að uppbyggingu og fastanefnd EFTA, með samsvarandi undirnefndir og margvíslega vinnuhópa.

Sameiginlegu EES-þingmannanefndina skipa jafnmargir þingmenn Evrópuþingsins annars vegar og þjóðþinga EFTA/EES-ríkjanna hins vegar, samtals 24 þingmenn. Ísland hefur fjóra fulltrúa í nefndinni, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Hlutverk nefndarinnar er fyrst og fremst að stuðla með umræðum og fundum að auknum skilningi milli ESB- og EFTA/EES-ríkjanna á þeim sviðum sem samningurinn nær til. EES-ráðgjafarnefndin er vettvangur fyrir samskipti og samráð milli aðila vinnumarkaðar ESB og EFTA/EES-ríkjanna. Í henni eiga sæti fyrir hönd EFTA/EES-ríkjanna fulltrúar ráðgjafarnefndar EFTA og fulltrúar efnahags- og félagsmálanefndar ESB fyrir hönd Evrópusambandsins.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela