Spurning

Er samræmd stefna í skattamálum innan ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Skattamál eru almennt ekki á könnu ESB heldur stjórnvalda hvers aðildarríkis fyrir sig. Viss skref hafa þó verið stigin í átt að samræmingu skatta með það fyrir augum að hamla ekki virkni innri markaðarins einkum á vettvangi óbeinna skatta svo sem virðisaukaskatts og vörugjalda. Þá hafa aðildarríkin einnig aukið upplýsingamiðlun sín á milli og þannig starfað saman til að koma í veg fyrir skattsvik og skattaundanskot. Skattamál falla utan ramma EES-samningsins.

***

Evrópusambandið hefur mjög takmarkaðar heimildir til þess að setja reglur á sviði skattamála en slíkar valdheimildir liggja almennt hjá aðildarríkjunum sjálfum. Ákvörðun skatta er mikilvægur hluti af fjárstjórnar- og fjárlagavaldi ríkja, sem algengt er að bundið sé í stjórnarskrá að skuli vera á hendi löggjafans, það er þjóðþinganna. Aðildarríki ESB hafa til þessa ekki haft áhuga á því að láta þessi völd af hendi enda um að ræða eina af grundvallarvaldheimildum fullvalda ríkja. Samræming á sviði skattamála í ESB hefur því aðeins orðið á fáum sviðum.

Meginmarkmið þeirra skattareglna sem Evrópusambandið hefur samræmt er að styrkja innri markaðinn og stuðla að einsleitni hans, tryggja fjórfrelsið og koma í veg fyrir mismunun aðila á markaði varðandi innheimtu skatta.


Í grófum dráttum skiptist stefna Evrópusambandsins í skattamálum í tvennt. Annars vegar eru það beinir skattar sem fyrst og fremst varða skattlagningu fyrirtækja og í sumum tilvikum einstaklinga. Beinir skattar eru að mjög litlu leyti samræmdir meðal aðildarríkjanna. Hins vegar eru það óbeinir skattar sem varða vörur og þjónustu en þar hefur yfirgripsmeiri samræming átt sér stað. Þar má helst nefna virðisaukaskatt og vörugjöld að því er varðar andlag skattsins og hlutfall hans en hvort tveggja er byggt á þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að jafna samkeppnisstöðu aðila á innri markaðinum. Þessu til viðbótar hafa aðildarríkin gert samkomulag um skattlagningu fjármagnstekna ESB-borgara í öðrum ESB-ríkjum en það er gert til að fyrirbyggja fjármagnsflótta úr einu aðildarríki í annað.

Auk þessa að tryggja jafna samkeppni yfir landamæri, hafa aðildarríkin lagt áherslu á að fyrirbyggja skaðlega skattasamkeppni. Aðildarríkin starfa saman og miðla upplýsingum sín á milli til að koma í veg fyrir tvísköttun og skattaundanskot.

Lengra hefur ekki verið gengið í samræmingu skattastefna aðildarríkjanna en þó eru uppi hugmyndir um samræmdan skattagrunn (e. tax base) fyrir fyrirtæki til að jafna samkeppnisstöðu á innri markaðinum og einfalda uppgjör og skattskyldu þegar fyrirtæki halda úti starfsemi í fleiru en einu aðildarríki.

Skattamál falla utan EES-samningsins. Í samningsafstöðu Íslands varðandi skattamál, í viðræðunum um aðild að ESB, kemur fram að ESB-aðild mundi hafa umtalsverð áhrif á íslenska virðisaukaskattkerfið þó íslensk lög um virðisaukaskatt byggi á svipuðum sjónarmiðum og evrópsku reglurnar. Ef til aðildar kæmi yrðu breytingar á íslensku lagaumhverfi er varðar skattamál þar sem Ísland mundi þurfa að innleiða útistandandi regluverk ESB sem og setja upp nauðsynlegan stofnanaramma. Auk þessa þyrfti að setja upp rekstrarhæft tölvukerfi hér á landi sem stæðist kröfur ESB í þessum efnum.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela