Spurning

Mundi aðild Íslands að NAFTA ekki fela í sér framsal á fullveldi rétt eins og aðild að Evrópusambandinu?

Spyrjandi

Sigurður Hjaltested

Svar

Nei. NAFTA er ekki yfirþjóðleg samtök eins og Evrópusambandið heldur einungis hefðbundinn milliríkjasamningur um fríverslun. Aðild að NAFTA felur því ekki í sér fullveldisframsal til yfirþjóðlegra stofnana.

***

NAFTA stendur fyrir North-American Free Trade Agreement eða Fríverslunarsamning Norður-Ameríku. NAFTA er ekki alþjóðleg stofnun í anda Sameinuðu þjóðanna eða fríverslunarsamtök eins og EFTA og því síður yfirþjóðleg ríkjasamtök eins og Evrópusambandið.


Bandaríkin, Kanada og Mexíkó eiga aðild að NAFTA.

Ríkin sem eiga aðild að NAFTA, Bandaríkin, Kanada og Mexíkó, hafa ekki framselt hluta fullveldis síns með því að gerast aðilar að samningnum. NAFTA er einungis nafn á fríverslunarsamningi ofannefndra ríkja sem er að öllu leyti hefðbundinn milliríkjasamningur. Hann mælir ekki fyrir um að sett séu á fót varanlegar alþjóðlegar stofnanir á borð við þing eða dómstóla heldur snýst samningurinn fyrst og síðast um að tryggja frjálsa verslun milli landanna þriggja. Nánar er fjallað um NAFTA í svari við spurningunni Hvað er NAFTA og hver er munurinn á uppbyggingu þess og ESB?

Af þessu leiðir að aðild Íslands að NAFTA fæli ekki í sér framsal á fullveldi, ekki frekar en aðild Íslands að EFTA. Þess má geta að ólíklegt er að Ísland muni sækjast eftir aðild að fríverslunarsamningi Norður-Ameríku eins og nánar er fjallað um í svari við spurningunni Af hverju sækir Ísland ekki um aðild að NAFTA í staðinn fyrir ESB?

Um framsal á fullveldi Íslands er oft rætt í tengslum við þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Til nánari fróðleiks um Evrópusambandið og EES-samninginn er lesendum bent á svörin við spurningunum Hvert er eðli ESB-sáttmálanna? og Hvert er eðli EES-samningsins? Þá má einnig benda á frekari umfjöllun um fullveldið og sjálfstæði Íslendinga í svörum við spurningunum Hversu sjálfstæð þjóð eru Íslendingar ef litið er til sjálfstæðisbaráttu, inngöngu í EES og hugsanlegrar inngöngu í ESB? og Glata Íslendingar fullveldinu við inngöngu í ESB?

Mynd:

Upprunaleg spurning barst í gegnum Facebook-síðu Evrópuvefsins:
Er afsal á fullveldi ekki helsta röksemdin fyrir því að vera á móti aðild að ESB, værum við ekki í sömu málum með því að ganga í NAFTA?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.4.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson og Þórhildur Hagalín. „Mundi aðild Íslands að NAFTA ekki fela í sér framsal á fullveldi rétt eins og aðild að Evrópusambandinu?“. Evrópuvefurinn 12.4.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65076. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundar

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá EvrópuvefnumÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela