Svar
Stutta svarið er nei – en málið er vitaskuld einnig svolítið flóknara.
Myntbandalag Evrópu er rekið sem sérstakt stefnusvið innan Evrópusambandsins og er þannig lagað ekkert ósvipað öðrum stefnumálum þess, á borð við
landbúnaðarstefnuna eða
Schengen-landamærasamstarfið. Til að svara ofangreindri spurningu er einnig gott að hafa í huga, að þó svo að hinn sameiginlegi gjaldmiðill sé mikilvægur hlekkur í samstarfi þeirra sautján
Evrópusambandsríkja (af 28) sem hafa innleitt evruna hafði Evrópusambandið og forverar þess þó starfað saman án evrunnar í nálega hálfa öld áður en hún var tekin upp. Í sjálfu sér væri hægt að hverfa aftur til þess fyrirkomulags. Það verður þó að teljast ólíklegt – og eiginlega alveg útilokað – eins og hér verður rakið.
***
Öfugt við hvað ætla mætti af umræðunni var evran engin skyndihugdetta. Innleiðing hennar undir aldamótin var endahnykkurinn á langvarandi undirbúningi. Hægfara þróun
innri markaðarins, sem hvílir á
fjórfrelsinu svokallaða, þrýsti smám saman á um peningalegan samruna. Fjöldi gjaldmiðla á sama markaði skapar viðskiptahindrun. Mikið fé tapast til að mynda í viðskiptum yfir mæri gjaldmiðla en sameiginlegur gjaldmiðill margfaldar hins vegar viðskipti milli þátttökulandanna. Sameiginlegur gjaldmiðill eykur skilvirkni innri markaðarins en er hvorki forsenda hans né fjórfrelsisins. Fjármálakrísan hefur hins vegar opinberað kerfisgalla í gangverki evrunnar sem var raunar þekktur frá upphafi. – Jafnvel má halda því fram að um samsæri samrunasinna hafi verið að ræða.
Frá fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins árið 1998 þar sem ákveðið var að 11 aðildarríki samþykktu skilyrðin fyrir upptöku evru 1. janúar 1999. Tveimur árum síðar var Grikkland talið uppfylla sömu skilyrði - sú ákvörðun reyndist byggð á fölskum forsendum. |
Þegar myntbandalagið var í smíðum voru leiðtogar í Evrópu ekki reiðubúnir til að færa fjármálastjórn aðildarríkjanna undir sameiginlega stjórn. Þó var vitað að tilkoma myntbandalags mundi á endanum þvinga fram samræmda fjármálastjórn; viðlíka aðgreining milli peningamálastjórnunar og fjármálastjórnunar mundi ekki ganga til lengdar. Einmitt það hefur nú komið á daginn. Fyrir utan skilyrðin í
stöðugleikasáttmálanum svokallaða, sem skuldbindur evruríkin til að gæta nokkurs aðhalds í ríkisfjármálum, er fjármálastjórn áfram að mestu í höndum aðildarríkjanna sjálfra á meðan peningamálum er nú stýrt af
Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Þessi aðgreining milli fjármálastjórnunar og peningamálastjórnunar framkallar alvarleg samstillingarvandamál sem nú blasa við. – Evrusvæðið skortir tæki til að geta tekist á við vandamálin í Grikklandi, Ítalíu, Portúgal og á Spáni, sem öll eru sjálfstæð og fullvalda ríki. Það er hér sem hnífurinn stendur í kúnni. Leiðtogar Evrópusambandsins eru í samræmi við þetta nú þegar farnir að kalla eftir nánari samræmingu í ríkisfjármálum á evrusvæðinu til að bregðast við áskorunum fjármálakrísunnar.
Allar götur frá því að gullfóturinn molnaði í sundur í upphafi áttunda áratugarins hafa Evrópuríki unnið að kerfisbundinni peningalegri samþættingu, sem varð að veruleika með innleiðingu evrunnar árið 1999. Nú eru
evruríkin í örvæntingarfullri leit að meðali sem dugir til að fleyta þeim í gegnum kreppuna. Tvennt liggur nokkuð ljóst fyrir. Fyrirkomulag og stjórnun evrunnar verður ekki eins og áður. Takast þarf á við samstillingarvandann þegar um hægist. Jafnljóst er að evruríkin munu ekki heldur hverfa aftur fyrir aldamót og taka upp hvert sinn gamla gjaldmiðil á nýjan leik. Það væri óhemju dýrt og áhættusamt – og í raun engin lausn. Fjöldi sjálfstæðra gjaldmiðla á samræmdum markaði hefur sömu galla nú og áður.
Umræðan um það hvort aðildarríkin þurfi öll að undirgangast nákvæmlega sama regluverk eða hvort þau megi velja af hlaðborði stefnumála hefur fylgt Evrópusamrunanum frá upphafi. Þrátt fyrir allra handa
undanþágur, sérlausnir og svæðisbundnar kenjar hefur Evrópusambandið ennþá, að nafninu til, reynt að halda í kröfuna um einsleitt bandalag. Nú má hins vegar gera ráð fyrir að Evrópusambandið þróist í að verða
tveggja laga (e. two tier integration).
Krafan um aukna samstillingu í fjármálum evruríkjanna mun vafalítið herða á samrunaþróuninni á evrusvæðinu. Að sama skapi er ljóst að sumum þeirra sem standa utan evrusvæðisins mun ekki þykja það fýsilegur kostur í bráð. Evran veitir vissulega veigamikið skjól en um leið takmarkar hún möguleika ríkisstjórna á að bregðast við áföllum. Aðildarríki Evrópusambandsins munu því þurfa að velja hvorum megin hryggjar þau verði: í innri eða ytri kjarna Evrópusamstarfsins.
Nokkuð er rætt um að verst stöddu ríkin, svo sem Grikkland, hverfi úr evrusamstarfinu. Einfaldast væri að innleiða nýja gríska drökmu, ákveða skiptigengi við evruna og umbreyta síðan innstæðum og skuldum um leið og nýjum seðlum og mynt væri dreift. Til að forða gengishruni þyrfti að setja sver gjaldeyrishöft sem væri brot á ákvæðum sáttmála ESB um frjálsa fjármagnsflutninga. Óvíst er að erlendir lánadrottnar mundu sætta sig við slíkan hreppaflutning en í svipinn sýnist sem gríska ríkið geti í raun ráðið örlögum þeirra – engin veð eru fyrir ríkisskuldum og því er að engu að ganga.
Kostnaðurinn við gjaldmiðilsskiptin yrði vissulega gríðarlegur fyrir grískan almenning en um leið yrði hagkerfið samkeppnishæfara. Óhjákvæmilega yrði þó yfirvofandi hætta á að bankar mundu loka dyrum sínum í kröftugu áhlaupi og að skortur yrði í verslunum. Fyrirtæki gætu þá farið á hausinn, verðbólga rokið upp úr öllu valdi og lánamarkaðir lokast. Ríkir flýðu þá með eigur sínar úr landi á meðan millistéttin mundi leggja niður vinnu og sameinast mótmælendum á götum úti. Þetta er þróun sem menn vilja ógjarnan sjá hvar endar.
Útganga Grikkja og annarra skuldahrjáðra ESB-ríkja úr myntbandalaginu hefði ekki mikil áhrif á innri markaðinn að öðru leyti en mundi vissulega létta þrýstingi af Evrópusambandinu. Slíkt gæti hins vegar haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið í viðkomandi löndum ef ekkert yrði að gert.
Heimildir og myndir:
Upprunaleg spurning:
Mun Evrópusambandið hrynja ef evran hrynur? og þá sérstaklega í ljósi fjórfrelsisins?