Spurning

Tengist Icesave ESB á einhvern hátt?

Spyrjandi

Jón Hjörvar

Svar

Icesave-deilan er á milli Íslands og Bretlands annars vegar og Íslands og Hollands hins vegar. Í þröngum skilningi snýst Icesave-deilan um þá kröfu Breta og Hollendinga að íslenska ríkið beri ábyrgð á innlánum sem voru á Icesave-reikningum Landsbankans í útibúum bankans í Bretlandi og Hollandi þegar íslenska ríkið tók yfir rekstur bankans. Bretland og Holland telja að Íslandi beri lagaskylda til að greiða kröfuna (að lágmarki 20.000 evrum) á grundvelli réttarheimilda EES-réttar (tilskipun um innlánstryggingakerfi (nr. 94/19/EB) og meginreglunni um bann við mismunun). Íslensk stjórnvöld telja aftur á móti að þau séu ekki skuldbundin, hvorki samkvæmt íslenskum lögum né á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga, til þess að bera ábyrgð á umræddum innlánum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur tekið þá afstöðu að Ísland hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum og því höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum.


Heimasíða Icesave á hollensku.

Evrópusambandið er ekki aðili að Icesave-deilunni með beinum hætti. Stofnanir Evrópusambandsins hafa tekið þá afstöðu að Icesave-deilan sé tvíhliða deila á milli ríkjanna þriggja. Icesave-deilan tengist Evrópusambandinu þó á ýmsan hátt:
  • Í fyrsta lagi snýst Icesave-deilan að stórum hluta um túlkun á reglum Evrópusambandsins. Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa hagsmuni af því að ekki ríki óvissa um lagalega stöðu innstæðueigenda og að regluverkið og fjármálamarkaðir njóti trausts. Að auki hefur sambandið almenna hagsmuni af því að tryggja virkni og trúverðugleika réttarreglna sambandsins.
  • Í öðru lagi eru Bretland og Holland aðildarríki Evrópusambandsins, sem kemur fram sem fulltrúi sameiginlegra hagsmuna aðildarríkjanna. Reyndar er ekki ólíklegt að sú afstaða stofnana ESB að Icesave-deilan sé tvíhliða mótist af því að Bretland og Holland hafi talið að hagsmunum sínum væri betur borgið með þeim hætti, það er að þau væru betur í stakk búin til að beita Ísland þrýstingi án aðkomu sameiginlegra stofnana EES-samningsins, sem hafa meðal annars það hlutverk að leysa úr deilum milli EFTA/EES-ríkja og ESB.
  • Í þriðja lagi er Ísland tengt Evrópusambandinu í gegnum EES-saminginn, sem er mikilvægur viðskiptasamningur fyrir báða aðila. Ísland og önnur EFTA-ríkin hafa enn fremur sterk menningarleg tengsl við aðildarríki ESB. Í tilviki Íslands eru þar að auki augljóslega til staðar sterk tengsl við þann hluta Norðurlandanna sem er innan sambandsins. Evrópusambandið hefur því áhuga á að koma í veg fyrir deilur við EFTA-ríkin, ekki síst til að forða því að slík deila hafi áhrif á viðskipti og samstarf við þau ríki.

Til skýringar má nefna að Evrópusambandið er afar flókin stjórnskipuleg eining. Helstu stofnanir sambandsins eru framkvæmdastjórnin, ráðið og Evrópuþingið. Í mjög einfaldri mynd er framkvæmdastjórnin fulltrúi sameiginlegra hagsmuna ríkjanna og sambandsins sjálfs; ráðið kemur fram fyrir hagsmuni aðildarríkjanna, en þar sitja fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkjanna á hverjum tíma; á meðan þjóðir Evrópu kjósa sér sjálfar fulltrúa á Evrópuþingið. Þannig geta stofnanir ESB haft mjög ólíka sýn á umdeild mál, líkt og Icesave, ákveðin ríki geta einnig haft ólíkar skoðanir á málum (til dæmis Þýskaland og Grikkland) og pólitískar fylkingar innan Evrópusambandsins sömuleiðis (til dæmis hægri og vinstri flokkar).

Þrátt fyrir þetta hafa fulltrúar ESB ítrekað komið þeirri afstöðu á framfæri að mikilvægt sé að lausn náist í Icesave-deilunni og að sú lausn feli í sér að Ísland greiði „Icesave-skuldina“ við Breta og Hollendinga. Þetta má meðal annars sjá af frásögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra, af fundi fjármálaráðherra ESB- og EFTA-ríkjanna (ECOFIN) þann 4. nóvember 2008. Þar kom greinilega fram þrýstingur á Ísland að samþykkja kröfur Bretlands og Hollands með skjótum hætti, annars yrði aðgengi Íslands að lánsfé frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hindrað.


Aðalmálflytjandi í samningsbrotamálinu er breski lögmaðurinn Tim Ward.
Afstöðu ESB gagnvart Icesave má einnig sjá af kröfu framkvæmdastjórnar ESB um að stofnuninni yrði veitt meðalganga fyrir EFTA-dómstólnum. Þar tekur framkvæmdastjórnin að mestu leyti undir kröfur eftirlitsstofnunar EFTA varðandi ábyrgð Íslands. Krafan um meðalgöngu segir mikið um vægi málsins fyrir ESB en þetta er eina skiptið sem framkvæmdastjórnin hefur farið fram á slíka aðild. (Þess má þó geta að framkvæmdastjórnin skilar inn athugasemdum í öllum málum fyrir EFTA-dómstólnum.) Þá er ekki útilokað að samningsbrotamálið hafi verið höfðað vegna þrýstings af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.

Eftir sem áður er allt útlit fyrir að Icesave-málið hafi fallið mjög hratt í forgangsröðun Evrópusambandsins. Víglínurnar varðandi samheldni og traust á fjármálamörkuðum liggja annars staðar í dag og eftir því sem fjármálakreppan dregst á langinn fækkar þeim aðildarríkjum sem hafa áhuga á reglum sem minnka svigrúm ríkja til að grípa til neyðaraðgerða til að vernda sín eigin fjármálakerfi. Minnkandi áhuga má meðal annars sjá af þeirri staðreynd að engin Evrópusambandsríki, önnur en Bretland og Holland, nýttu sér réttinn til að skila inn athugasemdum í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Til samanburðar nýttu níu Evrópusambandsríki sér slíkan rétt í máli EFTA-dómstólsins frá 2007 sem varðaði fyrirkomulag norskrar happdrættislöggjafar (mál E-3/06).

Hvaða hvatar eða ástæður liggja að baki afskiptum ESB að Icesave er spurning sem sagnfræðingar framtíðarinnar munu þurfa að glíma við; hvort fulltrúar fjármagnseigenda hafi haft áhrif á ákvarðanatöku innan sambandsins, hvort hagsmunir tveggja sterkra aðildarríkja hafi haft algjöran forgang, eða hvort hagsmunir heildarinnar – það er sameiginlegir hagsmunir allra 30 EES-ríkjanna – hafi verið hafðir að leiðarljósi. Þó verður að segjast eins og er að aðkoma ESB að Icesave-málinu er jafn klaufaleg og viðbrögð sambandsins við fjármálakreppunni almennt. Líklega hefur Evrópusambandið aldrei lagt raunverulegt mat á hagsmuni sambandsins við lausn deilunnar né fyllilega náð að móta heildræna stefnu gagnvart henni.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Guðmundur Ásgeirsson 31.8.2012

Með öðrum orðum er svarið: "JÁ"