Spurning

Ef við værum í ESB væri það þá ekki aðallinn í Brussel sem færi með alla samninga fyrir okkar hönd?

Spyrjandi

Marteinn Unnar Heiðarsson

Svar

Evrópusambandið hefur fullar valdheimildir á sviði sameiginlegrar viðskiptastefnu sambandsins. Stofnanir sambandsins fara því alfarið með framkvæmd viðskiptastefnunnar og sjá um viðskiptasamninga við ríki eða ríkjahópa utan ESB. Með aðild að ESB fengi Ísland aðild að þessum stofnunum og því mætti segja að Ísland yrði þá hluti af „aðlinum“, eins og spyrjandi kýs að orða það, þótt deila megi um hver áhrif Íslands yrðu innan ESB. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi þyrfti Ísland að segja upp öllum gildandi fríverslunarsamningum og fengi þess í stað aðild að fríverslunarsamninganeti ESB.

***

Evrópusambandið er tollabandalag og í viðskiptum milli aðildarrríkjanna á innri markaðinum eru ekki lagðir á tollar, gjöld eða sambærilegir kvótar. ESB hefur einnig mótað með sér sameiginlega stefnu í utanríkisviðskiptum gagnvart þriðju ríkjum og fer sambandið með fullar valdheimildir (e. exclusive competence) á þessu sviði. Stofnanir ESB fara með framkvæmd stefnunnar og sjá um að gera viðskiptasamninga við öll ríki eða ríkjahópa utan sambandsins.


Myung Bak Lee forseti Suður Kóreu ásamt Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðsins og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Í grófum dráttum er ferlið við gerð viðskiptasamninga eftirfarandi: Ráðið veitir framkvæmdastjórn ESB heimild til að halda utan um fríverslunarviðræður sambandsins við þriðju ríki í samráði við viðskiptastefnunefnd (e. Trade Policy Committee). Nefndin heyrir undir ráðið en í henni sitja bæði fulltrúar aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar. Nefndin er vettvangur aðildarríkjanna til að koma sínum hagsmunum og sjónarmiðum á framfæri. Framkvæmdastjórnin heldur Evrópuþinginu upplýstu um framgang viðræðnanna á meðan á þeim stendur og að þeim loknum þarf þingið að staðfesta niðurstöðu samningaviðræðnanna. Nánari umfjöllun um viðskiptastefnu ESB gagnvart þriðju ríkjum er að finna í svari við spurningunni Hver er stefna ESB þegar kemur að viðskipta- og fríverslunarsamningum?

Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi yrði staða Íslands sú sama og annarra aðildarríkja sambandsins. Ísland yrði aðili að fríverslunarneti ESB og stofnanir sambandsins mundu koma fram fyrir Íslands hönd í öllum fríverslunarviðræðum, sem og á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Segja má að Ísland yrði þá hluti af hinum svo kallaða „aðli“, eins og spyrjandi kýs að orða það. Þó má deila um hver áhrif Íslands yrðu innan stofnana Evrópusambandsins, en hægt er að lesa meira um það efni í svari við spurningunni Hver er staða smáríkja innan ESB?

Ísland þyrfti að segja upp þeim fríverslunarsamningum sem ríkið á aðild að í gegnum EFTA-samstarfið. Sömuleiðis þyrfti að segja upp þeim tvíhliða fríverslunarsamningum sem Ísland hefur gert við ríki eins og Kína og Færeyjar og gera breytingar á öðrum gildandi viðskiptasamningum svo að þeir samræmist löggjöf ESB. Ísland yrði þó áfram aðili að EES-samningnum sem ESB/EES-ríki en ekki sem EFTA/EES-ríki. Ítarlega umfjöllun um þá fríverslunarsamninga sem falla mundu úr gildi er að finna í svari við spurningunni Hvaða viðskiptasamningar okkar falla niður við aðild að ESB? Hvaða samningar ESB kæmu í staðinn? Hver yrðu heildaráhrifin?

Fríverslunarnet Íslands sem EFTA-ríkis annars vegar og ESB hins vegar eru í megindráttum svipuð en þau ná í flestum tilvikum til sömu ríkja og veita sambærilegan markaðsaðgang fyrir helstu vörur sem eru meðal útflutningsafurða Íslands. Þetta er þó ekki algilt. Til dæmis er Ísland eina Evrópuríkið sem hefur gert fríverslunarsamning við Kína. Á móti kemur að Evrópusambandið hyggst hefja fríverslunarviðræður við Bandaríkin á næstu misserum en Ísland hefur löngum sóst eftir slíkum viðræðum án árangurs. Ljóst er að við aðild að ESB yrði í einhverjum tilvikum breyting á markaðsaðgangi Íslands að erlendum mörkuðum. Markaðsaðgangur áynnist inn á einhverja markaði utan sambandsins en tapaðist á öðrum.

Í dag er Ísland aðili að fríverslunarsamningum við rúmlega sextíu ríki. Á vettvangi EFTA-samstarfsins hafa verið undirritaðir 24 samningar sem taka til 33 ríkja. Til viðbótar hefur Ísland gert tvíhliða fríverslunarsamninga við Evrópusambandið, Færeyjar, Kína og Noreg, svo og Danmörku varðandi fríverslun við Grænland. Ítarlegri umfjöllun um fríverslunarsamninga Íslands er að finna í svari vefsins við spurningunni Hvaða fríverslunarsamninga hefur Ísland gert og eru þeir allir af sama tagi?

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela